Saman í 30 ár

Á þessu ári fagna Klettur og Scania 30 ára samstarfi. Frá því að umboðið hófst árið 1995 hafa Scania vörubílar verið leiðandi á íslenskum markaði og sannað sig við krefjandi aðstæður. Scania hefur lengi verið þekkt fyrir áreiðanleika, hagkvæmni, öryggi og tækninýjungar og hefur ekki aðeins skapað sér sterka stöðu í vörubílum og hópferðabílum, heldur einnig í sjávarútvegi, þar sem Scania vélar eru algengur valkostur í nýsmíði íslenskra skipa.

Fyrsti Scania vörubíllinn

Forveri Kletts, Vélasvið Heklu, tók við umboði Scania 10. Febrúar 1995 og kom fyrsti Scania vörubíllinn til landsins í maí sama ár. Bíllinn var af gerðinni Scania R143 Streamline og var afhentur fyrirtækinu ET og var Dóri Jónsson, betur þekktur sem Dóri Tjakkur, fyrsti ökumaðurinn. Hann tók bílinn í notkun 15. júní 1995 í hringferð þar sem haldnar voru bílasýningar víðs vegar um landið. Dóri keyrði bílinn í fimm ár og safnaði alls um 370.000 kílómetrum á mælinn, aðallega við flutning á gámum. Kaupin á bílnum sá Snorri Árnason, viðskiptastjóri Kletts, um en hann starfar enn innan fyrirtækisins í dag.

Mikil þróun á 30 árum

Á síðustu þremur áratugum hefur Scania verið í fararbroddi þegar kemur að nýsköpun og framþróun í vörubílaiðnaðinum. Stærstu breytingarnar hafa verið á sviði eldsneytissparnaðar, rafvæðingar og öryggisbúnaðar. Með tilkomu Scania Super árið 2021 var 8-10% minni eldsneytisnotkun frá fyrra módeli staðfest  og hefur fyrirtækið unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna fyrir sparneytnar lausnir. Scania hefur einnig þróað fjölbreyttari orkugjafa, þar á meðal metangas og rafvæðingu, og bætt háþróuðum öryggiskerfum í bíla sína sem draga úr slysum og bæta akstursupplifun. Með stöðugum tækniframförum hefur Scania haldið sér í fremstu röð í greininni og haldið áfram að mæta kröfum nútímans með sjálfbærum lausnum.

Markaðsleiðandi í 24 ár

Scania hefur verið mest seldi vörubíllinn á Íslandi 24 ár í röð í flokki vörubíla 16 tonn og stærri. Árið 2024 var metár í afhendingum Kletts á Scania bifreiðum, þar sem 151 nýr bíll var afhentur. Nánast allir Scania vörubílarnir sem seldir eru á Íslandi eru sérútbúnir klárir til notkunar, oft með ábyggingum á borð við vörukassa frá SKAB og Närko, HIAB hleðslukrana, gámakróka frá Joab og Multilift, auk efnispalla, malarvagna, vélarvagna og sérútbúna steypueiningavagna frá Sörling, Zetterbergs og Langendorf.

Aukið þjónustustig og bætt aðstaða

Með vaxandi fjölda Scania bifreiða hér á landi hefur Klettur lagt ríka áherslu á að bæta þjónustu sína. Vörubílaverkstæðið og smurstöðin eru opin til kl. 23:30 á kvöldin, auk þess sem boðið er upp á bakvakt allan sólarhringinn, allt árið um kring. Klettur hefur yfir 20 þjónustubíla, þar á meðal sérútbúinn smurþjónustubíl sem getur skipt um olíu á staðnum og fjarlægt úrgangsolíu. Árið 2018 opnaði Klettur nýtt verkstæði á Akureyri og árið 2024 bættist við glæsileg þjónustumiðstöð að Einhellu í Hafnarfirði. Með því er tryggt að þjónusta við Scania viðskiptavini sé í hæsta gæðaflokki víðs vegar um landið.

Samstarf Kletts og Scania byggir á trausti, fagmennsku og sameiginlegri skuldbindingu að veita framúrskarandi þjónustu. Við hlökkum til að halda áfram að þjónusta íslenskan markað með Scania vörubílum og stafrænum lausnum sem sameina hagkvæmni og sjálfbærni.

Aðrar fréttir