Við hjá Kletti höfum sett fókusinn á að auka þjónustuframboð okkar til viðskiptavina okkar,“ segir Sigurjón Örn Ólafsson, þjónustustjóri flutningatækja, og nefnir meðal annars lengdan opnunartíma á þjónustuverkstæðum þeirra og smurstöð í Reykjavík frá klukkan 8.00 til 23.30 fjóra daga vikunnar ásamt bakvöktum allan sólarhringinn, allan ársins hring. „Við höfum verið með þennan opnunartíma í rúm tvö ár og aðeins fengið jákvæð viðbrögð við þessari viðbót á þjónustu okkar. Eins höfum við starfrækt okkar eigin starfsstöð á Akureyri, Klettur Norðurland, í um rúmt ár þar sem við bjóðum upp á verslun og þjónustuverkstæði. Nýlega voru gerðar gagngerar endurbætur á smurstöðinni á Akureyri sem jafnast á við það besta í dag. Klettur hefur á að skipa 11 þjónustubílum, þar af einum sérinnréttuðum bíl sem er nánast smurstöð á hjólum,“ segir Sigurjón og bendir á að þá geti bíllinn mætt á verkstað og skipt um olíu, ásamt því að taka til baka alla úrgangsolíu. Þjónustubílar Kletts fara víða um land til að þjónusta Caterpillar vinnu- og aflvélar.
Töluverð aukning hefur verið á að viðskiptavinir velji þá leið að gera þjónustusamning til lengri tíma sem tryggir fyrirsjáanlegan rekstrarkostnað á tækinu og hámarkar nýtni.
Helstu vörumerki Kletts eru Caterpillar-vinnuvélar, -aflvélar, -rafstöðvar og -lyftarar, Scania-vörubifreiðar, -hópbílar, -bátavélar og -rafstöðvar, Ingersoll Rand-iðnaðarloftpressur og lagnakerfi og HIAB-hleðslukranar og -gámakrókar. Auk þess rekur Klettur hjólbarðadeild sem er með gæðadekk frá Goodyear, Sava, Nexen, Dunlop og Maxam-dekk fyrir vinnuvélar og traktora.
Hjá Kletti starfa um 100 manns á sex starfsstöðvum. Meginþorri starfseminnar fer fram í sérútbúnu húsnæði Kletts í Klettagörðum 8-10.
Sigurjón Örn Ólafsson, þjónustustjóri flutningatækja, segir að þjónustuverkstæði Kletts hafi lengt opnunartíma sinn sem bæti þjónustuna til muna.
Scania mest selda vörubifreiðin 2019
„Við vorum markaðsleiðandi á síðasta ári, eins og undanfarin 19 ár, með 41 prósent markaðshlutdeild í flokki stórra vörubíla, sem eru 16 tonn og yfir. Við erum mjög stolt af þessum árangri og þökkum við okkar dygga viðskiptavinahópi,“ segir Bjarni Arnarson, framkvæmdastjóri sölusviðs. „Nánast allir bílarnir eru afhentir fullútbúnir til notkunar með hvers konar ábyggingu og má þar helst nefna: vörukassa frá SKAB og Närko, HIAB hleðslukrana, gámakróka frá Joab eða Multilift og efnispalla frá Sörling, Zetterbergs og Langendorf. Einnig bjóðum við malarvagna, vélarvagna og sérútbúna steypueiningavagna frá þeim.“
Ný D6 XE rafdrifin jarðýta
Varla er hægt að velta við steini nema Caterpillar komi við sögu, enda eitt stærsta og þekktasta vörumerkið í vinnuvélaheiminum. „Það eru spennandi tímar fram undan hjá Caterpillar þar sem þeir eru meðal annars að kynna nýja D6 XE rafdrifna jarðýtu sem er fyrsta rafdrifna ýtan í heimi sem er með drifhjólin uppi,“ segir Snorri Árnason, sölustjóri landvéla. Hefðbundin dísilvél, CAT C9.3B, sér um að knýja rafal sem framleiðir raforku fyrir rafmótor sem svo knýr drifhjólin. Þessi búnaður er með allt að 90% færri hreyfanlega hluti en í hefðbundinni skiptingu og hraðabreytingar eru stiglausar. Eldsneytisnýting á fluttan rúmmetra er allt að 35% betri og viðhaldskostnaður er allt að 12% lægri en á eldri gerðum. Ökumannshúsið hefur einnig verið endurhannað, það er mun stærra með 15% stærri gluggafleti.
*Grein sem birtist í Fréttablaðinu 28.01.2020