
Þeir sem stýra vinnusvæðum og hafa yfir að ráða mörgum vinnuvélum þurfa að kynna sér stafræna þjónustu Kletts, að sögn þeirra Andra Þórs Ólafssonar og Aðalsteins Jóhannssonar, en snjallforrit í símann getur veitt þér fullkomna yfirsýn yfir allan tækjaflotann, hvar og hvenær sem er.
„Klettur hefur verið leiðandi í sölu og þjónustu vinnuvéla um langt skeið. Starfsemi Kletts er byggð á traustum grunni sem rekja má til ársins 1947 en auk vinnuvéla selur Klettur vörubíla, hópbifreiðar, tæki, skipavélar, varaaflsstöðvar og hjólbarða. Það starfa um 150 einstaklingar fyrir fyrirtækið og erum við með verkstæði í Reykjavík, Hafnarfirði og á Akureyri,“ segja Andri Þór Ólafsson sölustjóri og Aðalsteinn Jóhannsson tæknistjóri sem báðir vinna hjá fyrirtækinu Kletti.

Klettur þjónustar flestar atvinnugreinar landsins
Helstu vörumerki Kletts í gegnum tíðina hafa verið Scania og CAT en þau merki eru leiðandi á sínum mörkuðum um allan heim. „Við byggjum á góðum grunni en það sem við leggjum áherslu á að kynna núna er stafræn þjónusta okkar í vinnuvélum sem auðveldar stjórnendum og eigendum störf sín og gefur mikilvæga innsýn inn í reksturinn til að lækka kostnað og auka afköst,“ segja þeir.
Mörgum er kunnugt um mikilvægi stafrænnar þjónustu þegar kemur að bilanakóðum en neyðarþjónusta Kletts þykir til mikillar fyrirmyndar á því sviði.
„Þegar bilun kemur upp í vinnuvélum þá er hægt að hafa samband við okkur og við getum farið inn í kerfið og skoðað hvað er að. Út frá því getum við skipulagt viðgerðir og mætt á staðinn þar sem bilunin á sér stað með þá varahluti sem vantar. Þetta hefur reynst mjög vel í skipum sem dæmi þegar bilun kemur upp í vél úti á sjó. Þá getum við mögulega mætt skipinu í næstu höfn með það sem þarf og skipið farið af stað til veiða aftur, stundum á innan við klukkustund.“
Þess má geta að fyrirtækið Klettur er stórt á markaði þegar kemur að hinum ýmsu atvinnugreinum „Við seljum bæði aflvélar og ljósavélar um borð í skip. Við erum einnig með varaaflsvélar í gagnaverum, í fjarskiptafyrirtækjum, bönkum og sjúkrahúsum svo eitthvað sé nefnt. Við erum með rafstöð í Seðlabankanum, á lögreglustöðvum og Landspítalanum. Við gerum þjónustusamninga við alla þessa aðila, förum við í reglulegt eftirlit sem er stundum mánaðarlega og síðan stærri skoðanir árlega. Hjá Kletti erum við með bakvaktir þar sem við erum með fimm manns á vakt allan sólarhringinn. Það er því alltaf hægt að ná í einhvern eftir lokun verkstæðis. Þegar verið er að flytja fisk á landi í flug, ef eitthvað kemur upp á og bíllinn bilar á heiðinni þá eru viðgerðarmennirnir okkar farnir af stað á nóttunni með varahluti til að koma bílnum í gang aftur eins fljótt og mögulegt er. Það mæðir gífurlega mikið á starfsemi véla í mörgum atvinnugreinum í landinu og því þarf þjónustan að vera til fyrirmyndar,“ segja þeir.
Snjallkerfi sem eru mjög einföld í notkun fyrir allan flotann
Flotastýringarkerfið í öllum vélum Kletts, ekki síst í CAT- og Scania-vélunum, skiptir sköpum í rekstri fyrirtækja. „Við erum með tvö snjallkerfi; Scania Fleet-appið og CAT VisionLink-stýrikerfið. Ef við tökum sem dæmi VisionLink þá færðu rauntímagögn um rekstur, ástand og staðsetningu tækjaflotans í einu mjög notendavænu kerfi, óháð framleiðanda. Þú getur sett þau öll inn í VisionLink. Í gegnum þessi snjallforrit sem þú ert með í símanum þínum geturðu séð hvað er í gangi í þinni vél. Það er hægt að sjá hverju hún er að eyða, lausaganginn, kolefnissporið og eldsneytið. Flotastjórnun er mikilvæg til að geta mælt kolefnisspor verkefna,“ segir Andri Þór.

Hægagangur véla getur verið til trafala að þeirra sögn. „Óþarfur og of mikill hægagangur eykur kostnað við viðhald og gengur jafnframt á ábyrgð véla þar sem ábyrgð er tengd tímamörkum eða vinnustundum, hvort heldur sem kemur á undan. Stjórnendur sem ráða yfir mörgum vélum verða að hafa yfirsýn yfir vinnuvélaflota sinn til að halda rétt á spöðunum þegar kemur að rekstrinum og leiðbeina starfsfólki á vinnusvæðinu,“ segir Aðalsteinn.
Hægt að setja upp sjálfvirkar skýrslur
Snjallforritin eru notendavæn og einföld í notkun. „Eigendur fá þá aðgang inn á kerfið á netinu. Þar getur þú séð yfirlit yfir allan flotann þinn, óháð framleiðanda, hvað hann er að gera yfir daginn, vikuna, mánuðinn og árið. Sem dæmi geta viðskiptavinir í snjómokstri séð staðsetningu tækis og rakið feril hans yfir ákveðið tímabil. Þegar vélarnar vinna allan sólarhringinn er svo hægt að rekja sig aftur á bak til að finna út hvert á að senda reikning fyrir sérhvert tímabil. Eins er hægt að setja upp sjálfvirkar skýrslur í kerfinu sem veita upplýsingar daglega, vikulega eða einu sinni í mánuði eftir hentugleika. Ef bilanir koma upp þá er hægt að láta kerfið senda okkur tölvupóst en þá fáum bæði við og þeir sem eiga vélarnar upplýsingar strax svo hægt sé að bregðast við um leið og lágmarka þann tíma sem tækið er ekki að vinna. Eins er hægt að skrá tæki innan ákveðins ramma þannig að ef farið er út fyrir rammann þá kemur upp viðvörun,“ segja þeir.
Reynslumikið fólk tekur upplýstar ákvarðanir
Andri og Aðalsteinn segja alla viðskiptavini Kletts mjög áhugasama um nýjungar, sér í lagi þegar hagkvæmni stafrænna lausna er orðin þannig að þú ert með vélina í vasanum – eða með öðrum orðum, snjallforrit í símanum. „Um leið og fólk skilur hagkvæmnina á bak við þessar stafrænu lausnir, sér í lagi þeir sem hafa verið lengi í bransanum og vilja vita hvað vélarnar eyða mikilli olíu eða losa mikið koltvíoxíð, þá er ekki aftur snúið. Þú færð í snjallforritunum skýrslu um kolefnislosun fyrir öll verkefni og svo fyrir fyrirtækið yfir árið og það auðveldar til muna að setja inn tölur í grænt bókahald, svo dæmi séu tekin,“ segir Andri Þór.
Á heimasíðu Kletts undir flipa sem heitir stafræn þjónusta má kynna sér allar upplýsingar um þessar tækninýjungar. „Svo erum við alltaf við símann og höfum mjög gaman af því að heyra í okkar fólki og útskýra hvað er í boði í dag þegar kemur að vinnuvélum og nýjustu tækni í stafrænni þjónustu. Þetta er í rauninni eins einfalt og það getur orðið,“ segja Andri Þór Ólafsson og Aðalsteinn Jóhannsson að lokum.
Kynntu þér Vision Link hér.