Dagab er fyrirtæki í Svíþjóð sem sér um daglegan matvælaflutning og hefur fyrirtækið að undanförnu notast við rafknúna þungaflutningabíla og tvinnbíla. Í dag hefur fyrirtækið bætt við flotann sinn 64 tonna rafbíl sem mun sjá um vöruflutninga í Gautaborg.
Dagab var eitt fyrsta fyrirtækið í Svíþjóð til að nota rafknúna þungaflutningabíla í rekstri sínum og í dag er fyrirtækið það fyrsta í heiminum til að nota 64 tonna rafbíl til matvælaflutninga.
Innviðir eru mikilvægur þáttur í þungaflutningum og mun nýi vörubíllinn koma til með að vera hlaðinn með grænu rafmagni. Með skipulagningu og hraðhleðslu er markmiðið með þessum vörubíl að keyra meira en önnur ökutæki fyrirtækisins á að minnsta kosti tveimur vöktum og að afhenda vörurnar hratt og örugglega. Þetta þýðir að á 350-400 km leið verður veruleg minnkun á loftslags- og umhverfisáhrifum.
Þungir rafflutningar og flutningar á kældum matvælum eru áskorun þegar kemur að tækni. Bíllinn er því með sterkari íhlutum en rafbílarnir sem Scania hefur nú í framleiðslu til að geta tekist á við krefjandi rekstur.
„Að hafa jarðefnafrían matvælaflutning er nauðsynlegt til að draga úr loftslagsáhrifum frá farartækjum okkar. Þegar við notum rafmagnsbíl af þessari stærð verður verulegur munur og minnkun á útblástri. Er þetta enn eitt skrefið í átt að markmiðum okkar um jarðefnalausa flutninga fyrir 2030,“ segir Helena Blom, flutningsstjóri Dagab.
Byrjað verður að keyra rafmagnsbílinn eftir sumarið 2022. „Við vonumst til að sýna bílinn á vörubílasýningunni í Elmia í lok ágúst,“ segir Krister Kjellström, ökutækjastjóri Dagab.